Ég heiti Helga Guðrún Gunnarsdóttir. Ég lauk BS námi í íþrótta- og heilsufræði árið 2015 frá Háskóla Íslands og fékk skírteinið nánast á 60 ára afmælisdegi mínum. Ég er stolt af því að vera elsti nemandi, sem útskrifast hefur í faginu frá HÍ, sem starfar við fagið. Það sannar, í okkar æskudýrkandi samfélagi, að það er ekki allt búið um 45 ára aldurinn :)
Þá hef ég árið 2018 lokið viðurkenndu námi í markþjálfun hjá Evolvia ehf. með áherslu á heilsumarkþjálfun.
Ennfremur hef ég lokið leiðbeinendanámi hjá Ástu Valdimarsdóttur í hláturjóga og nýti aðferðina í þjálfuninni. Á Fésbókinni held ég úti síðu sem heitir Þjálfun í vatni. Þar má fylgjast með viðburðum og sjá stemningsmyndir.
Ég fór strax að þjálfa opinberlega við lok háskólanámsins og stofnaði fljótlega fyrirtækið Ræs ehf. Sem stendur er eg eini starfsmaðurinn hjá fyrirtækinu.
Ég hef sótt námskeið til Bandaríkjanna fyrir þjálfara í vatni og kynni mér helstu nýjungar í þjálfuninni. Ég er meðlimur í alþjóðasamtökum þjálfara í vatni, AEA, (Aquatic Exercise Association). Til að halda mér á tánum sæki ég fyrirlestra og námskeið um andlega og líkamlega heilsu.
Markhópurinn er fólk sem komið er um og yfir miðjan aldur, 45+, en þá er heldur ekki til setunnar boðið að sporna við öldrunarferlinu með markvissri þjálfun sem eflir og styrkir líkama og sál.